Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

Ástæðan fyrir mismunun eftir búsetu.

  Hefur þú einhverntíman velt því fyrir þér af hverju fólki er mismunað stórlega eftir búsetu þegar kemur að innheimtu fyrir "dreifingu" raforku til almennra notenda og fyrirtækja annarra en álfyrirtækja.

  Forsaga málsins er sú að hér var tekin upp ESB tilskipun um aðskilnað milli framleiðslu og sölu á raforku annars vegar og dreifingu orkunnar hinsvegar.  Þetta var auðvitað eins og sumt annað hjá þeim blessuðum þarna niðri í Brussel ætlað til að auka samkeppni á raforkumarkaði og hefur þá sjálfsagt átt að lækka verð til notenda.  Raunin varð auðvitað ekki sú hér á Íslandi eins og allir vita.  Flestir vissu þetta áður en þessi tilskipun var tekin upp hér, nema kannski einstaka forpokaðir ráðherrar og embættismenn sem lifa fyrir svona reglugerðafargan.  Svo voru og eru líka uppi áhöld um það hvort við "þurftum" að taka þetta upp svona hrátt og óbreytt, allavega efast ég um það.

  En aftur að spurningunni:  Af hverju þessi mismunun milli þéttbýlis og dreifbýlis?  Inn í þessar reglur um uppskiptinguna var lætt klausu um að leyfilegt væri að mismuna fólki við innheimtu fyrir raforkudreifingu ef dreifingaraðilinn sýndi fram á mismunandi kostnað milli svæða.  Um slíka mismunun myndi svo Orkustofnun skera úr um þegar beiðni og rökstuðningur væri kominn fram frá dreifingaraðila.  Ekki veit ég hvort þessi lymskulega klásúla er ættuð erlendis frá eða frá embættismönnum hér heima, en hitt veit ég að henni er ofaukið í þessum lögum/reglum.  Það hljóta allflestir Íslendingar að vera sammála því að helstu þættir í grunnþjónustu við landann eigi að vera á sama verði til allra burtséð frá kyni, litarhætti, kynhneigð, trúarbrögðum og búsetu.  Ekki förum við að rukka Sjöunda dags aðventista meira fyrir að gera að beinbroti hans en múslima eða kaþólikka.  Varla förum við að rukka homma meira en lesbíur fyrir að ganga í háskóla eða látum þeldökkan mann borga hærri vegtoll í Hvalfjarðargöngin en mann sem ættaður er frá Tailandi.  Hvers vegna í ósköpunum ætti því fólki að finnast það eðlilegt að sá sem býr í "dreifbýli" greiði meira fyrir að fá raforkuna flutta heim til sín en hinn sem býr í "þéttbýli"?  Ég veit að til eru allavega fáeinir einstaklingar sem eru þessarar skoðunar.  Einhverir þeirra vinna sem stjórnendur hjá ríkisfyrirtækinu Rarik og stuðning fá þeir frá embættismönnum hjá Orkustofnun.  Ég hef undir höndum tölvupóst frá stjórnanda hjá Rarik þar sem hann segir að "þeim" finnist eðlilegt að viðhafa þessa mismunun og greinilega taka embættismenn Orkustofnunar undir það.  Ég reyndi mikið að rökræða við viðkomandi starfsmann um þetta mál en það hafði enga þýðingu því þetta virtist vera eins og að snúa heittrúuðum frá trú sinni, svona skyldi þetta vera.  Ef eðlilegt þætti að mismuna fólki á einhvern hátt varðandi dreifingarkostnað raforku væri aðeins ein leið fær að mínu mati og það er að allir greiddu í samræmi við fjarlægð frá framleiðslustað raforkunnar og þá er ég ekki viss um að fyrrgreindir ríkisstarfsmenn og embættismenn kæmu vel út úr því, allir búandi í þéttbýlinu á höfuðborgarsvæðinu.  Þeim finnst hinsvegar eðlilegt að bóndinn sem býr "nokkra" metra norðan við Akureyri greiði mikið hærra verð en Akureyringurinn og dreifbýlisbúar allt í kringum höfuðborgarsvæðið greiði mikið hærra verð en höfuðborgarbúar.  Meira að segja vilja þeir að bóndi sem býr við hliðina á virkjun greiði hærra verð en þéttbýlisbúar.  Þetta er þvílík og önnur eins vitleysa að það nær ekki nokkurri átt.  Eins og þetta dæmi sýnir þá er stórhættulegt að setja of mikið ákvörðunarvald í hendur á ókosnum ríkisstarfsmönnum og embættismönnum.  Þeir þurfa ekki að standa skil á gjörðum sínum gagnvart almenningi/kjósendum eins og alþingismenn og ráðherrar þó þurfa af og til.

  Ég krefst þess að þetta mál verði tekið fyrir í snatri innan ríkisstjórnar og alþingis Íslendinga og að í framhaldinu verði látið af þessari gróflegu mismunun sem nú er og ég er ekki aðeins að tala um raforku til húshitunar heldur alla raforku því það er ekkert minna nauðsynlegt fyrir alla að hafa raforku til lýsingar en upphitunar.


mbl.is Dreifing rafmagns hækkar um 2%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott mál fyrir viðskiptavini....... á höfuðborgarsvæðinu !!!

Þetta er stórfínt framtak hjá þeim, en ég bíð eftir því hvað þeir ætla að gera fyrir mig sem viðskiptavin úti á landi.  Ég á síður von á að fara að keyra 7-800 km til að komast í gagnaherbergið.  Ætli þeir hljóti ekki bara að senda mér þessar upplýsingar í ábyrgðarpósti, annað væri óeðlilegt.
mbl.is Vodafone opnar gagnaherbergi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband