Bloggfærslur mánaðarins, september 2016

Alvarleg staða í íslenskum sauðfjárbúskap.

Ég var á fundi í gærkvöld í Ljósheimum. Þar fór Ágúst Andrésson sláturhússtjóri Kaupfélags Skagfirðinga yfir helstu ástæður verðfellingar fyrirtækisins á kindakjöti til bænda, það er að segja útgáfu kaupfélagsins á því. Hann hélt því fram að ástæðan væri eingöngu vegna útflutnings en innanlandsneyslan kæmi þessu máli á engan hátt við. Þarna er ég í grundvallaratriðum ÓSAMMÁLA sláturhússtjóranum. Innanlandsneyslan er 60% af framleiðslu kindakjöts í landinu og því ótækt að slá hana útaf borðinu í umræðum um ástæðu verðlækkunarinnar til bænda. Ég ætla hreint ekki að halda því fram að Ágúst fari með rangt mál um það sem hann sagði í framsögu sinni um útflutningsmál, það er hinsvegar það sem ekki var sagt (eða minna var talað um) sem á skilið meiri athygli. Á íslandi ríkir svokölluð fákeppni í verslun með matvörur. Þessi fákeppni hér á landi er í boði og undir verndarvæng Samkeppniseftirlitsins íslenska þar sem þeir leyfa henni að viðgangast og í raun hleyptu þessu í gang á sínum tíma. Ég vil reyndar frekar kalla þetta einokunarverslun, enda stórlega í ætt við það sem áður hefur gerst hér á landi þar sem dönsku einokunarkaupmennirnir greiddu það sem þeim sýndist fyrir vörurnar verandi í aðstöðu til þess.
Nú er svo komið og hefur reyndar verið í einhver ár, að sláturleyfishafar þora ekki að fara fram á að einokunarkaupmenn greiði sannanlegan framleiðslukostnað fyrir kindakjöt, þeir gætu jú neitað að versla hjá þeim og snúið sér annað. Þetta er að mínu mati aðal ástæðan fyrir því að sláturleyfishafar koma svona fram við sauðfjárbændur. Svo virðist sem Samkeppniseftirlitið sé ekki að vinna vinnuna sína því þvermóðska og græðgi íslenskra einokunarkaupmanna stefnir í að rústa íslenskum sauðfjárbúskap og um leið dreifðum byggðum landsins. Þetta virðist allt með ráðum gert því ekkert má standa í vegi fyrir enn meiri hagnaði kaupmanna þótt þeir séu nú þegar með margfaldan hagnað miðað við kaupmenn á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum.
Hvað er til ráða? Íslenskir þingmenn virðast ekki vera með á nótunum, allavega heyrist álíka lítið í þeim þessa dagana og í forsvarsmönnum einokunarkaupmanna (sem annars eru daglega í fjölmiðlum að ljúga að landsmönnum).
Ef fólk hefur einhvern snefil af áhuga á að vita hvernig þessi ósanngjarna lækkun til bænda lítur út hjá þeim, þá er það einhvernvegin svona:
Búið er að greiða kostnaðinn við framleiðslu þessa árs og verður svo aftur að ári, enda kostnaðurinn fastur að miklu leyti. Rekstur allur á vélum, tækjum, húsum sem og viðhald er eitthvað sem ekki er hægt að komast hjá að greiða. Hvar eiga bændur þá að taka þessa peninga til að greiða sláturleyfishöfum? Það er af þeim litlu launum sem þeir hafa greitt sér og eins og fram hefur komið getur lækkunin þýtt ALLT AÐ 30% launalækkun !!! Þá skulum við ekki gleyma því að sagt hefur verið frá því að almennar launahækkanir hafi undanfarið verið yfir 20%, svona rétt til samanburðar.

Ábyrgð einokunarkaupmanna Íslands er mikil !

Ábyrgð forstjóra Samkeppniseftirlitsins er mikil !

Ábyrgð alþingismanna er mikil !

Ábyrgð ráðherra er mikil !

Hvenær skyldi einhver ofangreindra aðila vakna af sínum Þyrnirósarsvefni, sjá eyðilegginguna sem blasir við í íslenskum sauðfjárbúskap, girða upp um sig brækurnar og fara að gera eitthvað vitrænt í málinu.........

 

Ég held að menn ættu að gefa sér tíma til að lesa neðangreinda skýrslu um matvöruverð á Íslandi, allavega þeir sem vilja vita hvað er í gangi.

Góðar stundir.


Nhttp://www.bondi.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=7467


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband