Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Stærsta byggðaaðgerð allra tíma?
14.6.2015 | 10:12
Mikið hefur verið rætt og ritað um vandamál tengd fólksflótta til höfuðborgarsvæðisins á undanförnum árum og áratugum. Ýmislegt hafa stjórnvöld reynt til að sporna við þessari þróun sem þó verður að telja að hafi varla virkað. Byggðastofnun, byggðastyrkir, byggða þetta og byggða hitt, en allt kemur fyrir ekki. En ef nánar er skoðað er ekkert skrítið þó allar leiðir liggi suður þar sem raunveruleg byggðastefna stjórnvalda síðustu áratugina byggist kannski fyrst og fremst á því hvað gert er fyrir höfuðborgarsvæðið án þess að huga að afleiðingunum. Uppbygging stjórnkerfis landsins hefur að langmestu leyti farið fram á því svæði. "Hagræðing" í stjórnkerfinu hafa oftast farið þannig fram að þjónusta er minnkuð úti á landi og/eða færð til höfuðborgarsvæðisins og felur slík hagræðing oftast í sér kostnaðarauka fyrir íbúa dreifðari byggða. Sjálfsögð þjónusta á borð við þá sem veitt er í heilbrigðiskerfinu, skólakerfinu, vegakerfinu, fjarskiptakerfinu og víðar er skorin við nögl eftir því sem fjær dregur höfuðborgarsvæðinu. Einkavæðing og sala t.d. Símans hefur orðið til þess að sjálfsagt þykir að mismuna landsmönnum stórkostlega í fjarskiptaþjónustu, en ef lögum hefði verið breytt á þá leið að slík mismunun væri bönnuð, þá væri það vandamál ekki til staðar. Lög um raforkudreifingu sem opinberir starfsmenn og stjórnmálamenn tóku upp frá ESB hefur orðið til þess að mismuna fólki alvarlega eftir búsetu í gjaldtöku fyrir þessa sjálfsögðu grunnþjónustu. Margt fleira er hægt að týna til, en ég læt duga að sinni að nefna að líklega er langstærsta aðgerð eða aðgerðaleysi stjórnvalda til byggðaröskunar uppbygging vaxtabótakerfisins og ef af verður enn frekar með upptöku stórkostlegrar niðurgreiðslu húsaleigu. Ef fólk fengi ekki og hefði aldrei fengið slíka niðurgreiðslu á vöxtum og húsaleigu þá hefði samkeppni verið um allt land um fólkið. Fólk byggi þar sem það hefði efni á og atvinna myndi um leið haldast þar sem fólk vildi og gæti búið. Ef hinsvegar vilji stjórnmálamanna stæði til að styðja við banka og stóreignamenn með niðurgreiðslu okurvaxta og okurhúsaleigu sem þeir taka af almenningi þessa lands, þá væri skárra að slíkt færi ekki eftir kostnaði heldur stærð húsnæðis og/eða stærð fjölskyldu. Sama upphæð fengist í vaxta-/húsaleigubætur fyrir sömu stærð húsnæðis allsstaðar á landinu en með tengingu við fjölskyldustærð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)