Kjánaleg fullyrðing í fyrirsögn fréttar...

Það fer um mann kjánahrollur að lesa fyrirsögn fréttamanns mbl.is og ekki síður fullyrðingu Hagstofunnar í fyrirsögn sinni um rannsóknina sem er:  "Munur ráðstöfunartekna eftir menntun minnstur á Íslandi".

Hvaða tilgangi þjónar svona upphrópun um að háskólamenntun skili sér illa á Íslandi í samanburði við önnur lönd?  Getur verið að það sé hluti af launabaráttu?  Gott og vel, en það verður þá að krefjast þess að málin séu ekki "flækt í drasl" þannig að fáir nenni að kynna sér þau og enn færri skilji efni skýrslunnar.  Ég er einn þeirra sem nenni alls ekki að lesa þetta frá orði til orðs og hef sjálfsagt heldur ekki gáfur til að skilja innihaldið.  Þó reyndi ég t.a.m. að finna hvar fram kæmi vinnutíminn að baki tekjunum, en flestir vita að algengt er að fólk sem hefur lægri laun vinni lengri vinnudag til að ná endum saman.  Ef það er virkilega ekki tekið tillit til unninna vinnustunda að baki tekjunum þá gef ég ekki mikið fyrir þessa "rannsókn".  Svo tók ég eftir því að hagnaður af sölu hlutabréfa er undanskilinn í "lífskjararannsókninni" sem eykur nú ekki traustið á samanburðinum.  Hvorir eru líklegri til að hafa tekjur af sölu hlutabréfa, verkamenn eða háskólagengnir?  Við skulum líka reikna með að háskólamenntaðir einstaklingar hafi barið saman útfærsluna á rannsókninni...  Hafa þeir ekkert betra að gera en að búa til og bera á torg svona BULL !!!


mbl.is Menntun hefur minnstu áhrifin á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Svona, svona, þetta er nú ekki svona flókið og þú kæmist léttilega gegn um þetta ef þú hefðir ekki í upphafi ákveðið að þetta væri ólæsilegur kjaftavaðall háskólamenntaðra sérfræðiga fyrir sunnan (bið forláts strax ef þetta er rangt hjá mér og þú hafir rétt fyrir þér að þú hafir bara ekki gáfur til að skilja þetta ;).

Vinnutími er í eðli sínu misjafn eins og sést ef borin er saman vinna á sauðfjárbúi, vaktavinna á heilbrigðisstofnun og á frystitogara, eða kennsla svo dæmi séu tekin. Því er notast við ráðstöfunartekjur, sem er jú það sem þú hefur úr að spila - eftir skatta, barnabætur og slíkt og aðra tekjtengda þætti sem koma misjafnlega niður eftir tekjum og fjölskylduaðstæðum.

Varðandi hlutabréf, til að geta selt þau (og þá helst með gróða) þarf að kaupa þau á einhverjum tíma og það kostar útgjöld. Hlutabréf vaxa víst ekki á trjánum. Faðir minn, sem var sauðfjárbóndi, á og hefur átt hlutabréf hingað og þangað, en ég, háskólamenntaði sérfræðingurinn fyrir sunnan hef gert mest lítið af slíku, enda ekki haft sérlega mikinn aur umfram til að leika mér með í þannig fjárhættuspilum.

Ég geri ráð fyrir að báðir höfundar skýrslunnar séu háskólamenntaðir en ég sé ekki hvernig það kemur málinu við þegar kemur að samanburði Íslands við önnur lönd þar sem beitt er samræmdum aðferðum. Það gerir hlutinn ekki sjálfkrafa ómögulegan þó sá sem vinnur hann sé háskólamenntaður. Yrði veðrið betra ef veðurfræðingar væru ekki háskólamenntaðir...?

Haraldur Rafn Ingvason, 22.6.2015 kl. 18:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband